Alternate Text

Sveriges ambassadReykjavik, Ísland

Staðartími 20:26

FIELD STATION | NATURAE OBSERVATIO | SOLANDER’S EYE fylgist með náttúrulegum breytingum á Breiðamerkursandi

• Þverfagleg rannsóknastöð kennd við sænska náttúrufræðinginn Daniel Solander hefur verið tekin í notkun á Breiðamerkursandi • Veitir mikilvægar upplýsingar um umhverfisbreytingar í kjölfar hopunar jökla

Field Station.jpg

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Pär Ahlberger, sendiherra Svíþjóðar á Íslandi, opnuðu í dag rannsóknastöðina Auga Solanders (Solander‘s eye) sem staðsett er á Breiðamerkursandi og mun safna fjölbreyttum upplýsingum um þær breytingar sem verða smám saman á landsvæði sem er nýkomið undan jökli. Rannsóknastöðin er þverfræðilegt verkefni á vegum Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Hornafirði í samvinnu við vísindamenn innan og utan háskólans.

Sænska sendiráðiðið hafði frumkvæði að verkefninu með því að tengja Háskóla Íslands og evrópsku rannsóknarstofnunina The IK Foundation saman en um þessar mundir eru 250 ár liðin síðan Daniel Solander, sænskur náttúrufræðingur og nemandi Carls Linnaeusar, föður flokkunarfræðinnar, kom til Íslands í leiðangri breska náttúrufræðingsins Josephs Banks. Uppsetning rannsóknastöðvarinnar er liður í fjölbreyttum hátíðahöldum sem sendiráðið hefur skipulagt til að minnast þessarar merku ferðar.

Rannsóknarstöðin er sjálfvirk og mun sinna verkefni sínu í 12 mánuði án aðkomu manna. Hún mun safna miklu magni vísindagagna af ólíkum toga frá Breiðamerkursandi,  á landsvæði sem hefur nýlega komið undan jökli og er því í mikilli þróun. Svæðið er víðerni, einangrað frá náttúrunnar hendi og áhrif mannsins þar hverfandi. Staðsetning Auga Solanders býður því upp á framúrskarandi aðstæður til að fylgjast grannt með náttúrlegum ferlum úr fjarlægð án þess að hafa teljandi áhrif á virkni þeirra. Rannsóknasvæðið er hluti af Vatnajökulsþjóðgarði og þar með einnig á Heimsminjaskrá Menningarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO). Auk fjölbreyttra mælitækja sem skrá og vakta ýmsa náttúrufarsþætti inniheldur stöðin myndavélar og hljóðupptökutæki sem gefa m.a. færi á að fylgjast með framvindu gróðurs og dýralífi á svæðinu.

Gögnin sem safnað verður munu veita dýrmæta innsýn inn í þær miklu breytingar sem eru að verða á Breiðamerkursandi í kjölfar hraðrar hopunar Breiðamerkurjökuls. Þau verða gerð aðgengileg öllum (undir Creative Commons leyfi) áhugasömum og hluti þeirra, ekki síst myndefni, verður aðgengilegur í beinu streymi á vef háskólans. Háskóli Íslands mun hvetja vísindamenn til að nýta gögnin en jafnframt mynda þau grunn að virkri, þverfaglegri vísindamiðlun á þeim breytingum sem eru að verða á jöklum landsins.

Kjarni vísindahópsins innan Háskóla Íslands samanstendur af Benjamin Hennig, prófessor í landfræði, Finni Pálssyni, verkfræðingi og verkefnisstjóra í jöklafræði, Ingibjörgu Svölu Jónsdóttur, prófessor í vistfræði, Kieran Baxter, nýdoktor við Rannsóknasetur HÍ á Hornafirði, og Þorvarði Árnasyni, forstöðumanni rannsóknasetursins.

Verkefnið verður jafnframt unnið í samstarfi við fyrrnefnda IK Foundation, Jöklahóp Háskóla Íslands, Náttúrustofu Suðausturlands, Vatnajökulsþjóðgarð og Veðurstofu Íslands auk ýmissa sérfræðinga hjá Háskóla Íslands og öðrum stofnunum.

„Það er Háskóla Íslands mikil ánægja að taka þátt í þessu mikilvæga verkefni. Áhrif loftslagsbreytinga verða æ sýnilegri, ekki síst á starfssvæði Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Hornafirði, og því gleðst ég yfir forystu þess í verkefninu. Ég þakka Pär Ahlberger, sendiherra Svíþjóðar á Íslandi, og IK Foundation fyrir frumkvæðið að samstarfinu en verkefnið er afar viðeigandi nú þegar við minnumst þess að 250 ár eru liðin síðan að sænski náttúrurfræðingurinn Daniel Solander kom til Íslands í vísindaleiðangur með breska náttúrufræðingnum Josephs Banks. Nú leggjum við upp í nýjan og ekki síður mikilvægan vísindaleiðangur þar sem sjónum verður beint að því hvernig landið okkar er að breytast nú þegar jöklarnir hopa vegna loftslagsbreytinga,“ segir rektor Háskóla Íslands, Jón Atli Benediktsson.

„FIELD STATION | NATURAE OBSERVATIO | SOLANDER’S EYE er hluti af enn umfangsmeiri 250 ára minningarhátíð um Solander á Íslandi sem er þverfagleg, þvermenningarleg, nýstárleg og leitast við að virkja öll skilningarvit. Með röð viðburða, útgáfu og vísindaverkefnum á árunum 2022 og 2023 færir minningarhátíðin list og náttúruvísindi saman og fær samfélög um allt Ísland í lið með sér,“ segir Pär Ahlberger, sendiherra Svíþjóðar á Íslandi.

„Það er ánægjulegt að halda áfram í anda Solanders, lærlings Linnés, að reyna að skilja plánetuna Jörð! Sannkölluð brúarsmíði á milli tíma, þekkingar, fólks og landa,“ segir Lars Hansen, forstöðumaður IK Foundation.

,,Breiðamerkursandur er afar áhugavert svæði út frá náttúrufarslegu sjónarmiði. Þar er stórbrotið, villt landslag sem hefur verið í mikilli þróun frá því að jökullinn tók að hopa fyrir um það bil 130 árum. Svæðið – ekki þá síst Jökulsárlón – er jafnframt einn allra fjölsóttasti ferðamannastaður landsins og því mikil tækifæri þar til öflugrar vísindamiðlunar,“ segir Þorvarður Árnason, forstöðumaður Rannsóknaseturs HÍ á Hornafirði

Nánari upplýsingar veitir Þorvarður Árnason, forstöðumaður Rannsóknaseturs HÍ á Hornafirði, GSM: 895 9003.